Mig hefur alltaf langað til að sofa undir berum himni og ég skil eiginlega ekki af hverju ég hef ekki gert það fyrir löngu löngu síðan, held ég hafi alltaf verið að bíða eftir einhverju! Ég dreif mig svo loksins í síðustu viku og þetta var algjörlega dásamlegt.
Ég á mér uppáhaldsstað inni í dalnum, upp með fossunum á fallegri mosagróinni hæð með útsýni yfir bæinn minn og fjörðinn. Við Eyja (íslensku fjárhundur) fórum að græja okkur um kl. 20:00, það var óþarfi að fara of snemma í háttinn og gangan ekki svo löng. Í bakpokann fór svefnpoki, koddi, ullarsokkar, föðurland, langerma nærbolur, ullarbuff, tannbursti og tannkrem, sjúkrakit, súkkulaði, aukasokkar, klósettpappír og sótthreinsigel, vatnsbrúsi, pottur, hundamatur, kaffi og prímus, en bíddu, ekkert gas til. Ég hringdi í sjoppurnar hér og þar og ekkert gas til. Hvernig gat ég klikkað á þessu!! Nú átti ég nokkra kosti, hætta við (sem var náttúrulega ekki alvöru kostur), leita hjá vinum og vandamönnum að gasi eða hreinlega hita mér vatn heima og vona að morgunkaffið sem ég myndi laga mér yrði sæmilega heitt – því hver sefur úti og fær sér ekki kaffi að morgni?? Sem betur fer á ég svo dásamlegan frænda sem sefur úti og gerir allskonar skemmtilegt og mér datt í hug að hringja í hann. Hann átti gas og lagði meira að segja helling á sig, til að ég gæti fengið það lánað. Við Eyja vorum lagðar í hann kl. 22:15. Það mátti vart á milli sjá hvor var spenntari, ég eða hundurinn, þó hún hafi auðvitað ekkert vitað út í hvað við vorum að fara. Við gengum upp á brúnina og þegar þangað var komið skrifaði ég í dagbókina mína, þetta þurfti náttúrulega að „dokumenta“. Um miðnætti skreið ég ofan í svefnpokann, batt hundinn við bakpokann, því annars hefði hún bara farið inn á heiði að djamma eitthvað, og lagðist til hvílu. Birtan var dásamleg og líklega um 12°C. Ég hefði trúlega sofnað strax ef ekki hefði verið fyrir hundinn sem var alls ekki tilbúin til að loka augunum, fuglarnir að trufla hana og líklega hefur hún fundið lykt af kindum eða rebba langar leiðir. Ég sofnaði á öðru auganu og svo báðum og þegar ég rumskaði um miðja nótt lá Eyja hjá mér og hjúfraði sig upp að mér. Best í heimi. Við vorum búnar að sofa kl. 07:16 og nú var fyrsta verk auðvitað að laga kaffi 😊 Við morgnuðum okkur og höfðum það huggulegt og vorum komnar heim um 09:00. ÞETTA ÆTLUM VIÐ SKO AÐ GERA AFTUR! Ég veit að það gera þetta margir og þetta er ekki eitthvað súper sérstakt en fyrir mér var þetta geggjað og það er það sem mér finnst að lífið eigi að snúast um, að maður sé að gera eitthvað fyrir sig sem manni finnst geggjað. Það njóta þess svo allir í kringum mann! Bíðum ekki - #ÉGFYRIRMIG #LÍFIÐERNÚNA Fylgdu okkur á instagram
0 Comments
Leave a Reply. |
|